Það fór fram frábær leikur í gær er Liverpool og Chelsea áttust við í Ofurbikar Evrópu. Það var leikið á heimavelli Besiktas í Tyrklandi og vantaði alls ekki upp á fjörið í leikinn.
Chelsea komst yfir í fyrri hálfleik er Olivier Giroud skoraði fínt mark eftir sendingu frá Christian Pulisic. Sadio Mane jafnaði metin fyrir Liverpool snemma í seinni hálfleik eftir sendingu Roberto Firmino. Staðan var jöfn eftir 90 mínúturnar og í framlengingunni skoraði Mane svo sitt annað mark og kom þeim rauðu yfir.
Chelsea jafnaði svo af vítapunktinum en Jorginho skoraði þar örugglega eftir að brotið hafði verið á Tammy Abraham.
Úrslitin þurftu að ráðast í vítaspyrnukeppni og þar klúðraði Tammy Abraham einu spyrnunni og vann Liverpool hana, 5-4. Nú er því haldið fram að Adrian, markvörður Liverpool hafi verið komin með báða fætur af línunni.
Eftir klúðrið hefur rignt skilaboðum yfir Abraham á samfélagsmiðlum, mörg af þeim innihalda kynþáttaníð. Yfirvöld skoða málið.
,,Helvítis svarta píka, þú eyðilagðir kvöldið mitt,“ skrifar einn og flest skilaboðin eru svipuð.