Simon Jordan, fyrrum eigandi Crystal Palace varar öll félög við því að semja við Daniel Sturridge, fyrrum framherja Liverpool.
Sturridge leitar sér að nýju liði eftir að samningur hans við Liverpool rann út. Hann er með tilboð frá Bandaríkjunum og Tyrklandi.
Framherjinn er afar öflugur en hefur verið mikið meiddur, Jordan segir hann vera krabbamein inn í klefa liðs.
,,Aldrei í lífinu myndi ég semja við Daniel Sturridge,“ sagði Jordan þegar hann hjólaði í Sturridge á Talksport í dag.
,,Ég myndi ekki gefa honum samning fyrir spilaða leiki, ég myndi ekki vilja sjá Sturridge í klefanum eða á æfingasvæðinu. Nálægt ungum leikmönnum.“
,,Ég held að flestir í leiknum viti að með Daniel Sturridge koma vandamál, hann er vandræðagemsi.“
,,Hann hefur mikla hæfileika, en hann skapar vandræði með nærveru sinni.“