Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, gat brosað eftir leik sinna manna í kvöld gegn Stjörnunni.
Blikar unnu 3-1 sigur í Garðabænum en eftir að hafa lent 1-0 undir snemma í seinni hálfleik tóku gestirnir við sér.
Aron Bjarnason spilaði stórt hlutverk í endurkomunni en hann kom inná sem varamaður og var stórkostlegur fyrir Blika.
,,Ég er gríðarlega ánægður og þetta í rauninni bara virkaði hjá okkur,“ sagði Ágúst við Stöð 2 Sport.
,,Ég sagði við Gumma Ben fyrir leik að ég ætlaði að setja Aron inná og klára leikinn og það heppnaðist. Þið getið spurt hann.“
,,Það er ekki oft sem maður kemur á gríðarlega erfiðan útivöll og tekur þrjú stig. Við töpuðum þrisvar gegn þeim í fyrra og vorum staðráðnir í að fá þrjú stig.“
,,Ég skildi ekki alveg hvernig fótboltaleikur þetta var í fyrri hálfleik, menn voru í krummafót. Við sýndum klærnar í þeim seinni og settum þrjú frábær mörk. Þeir áttu engin svör.“
,,Eftir að þeir skoruðu var tilfinningin skrítin en leikmenn á vellinum voru með meðbyr og þeir héldu áfram og svöruðu kallinu.“