HK og Breiðablik skildu jöfn í Pepsi Max-deild karla í dag en liðin áttust við í Kórnum í annarri umferð.
Það var dramatík í Kópavogi en Blikar voru 2-0 undir þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þeir Thomas Mikkelsen og Viktor Örn Margeirsson skoruðu svo tvö mörk í blálokin og tryggðu Blikum stig.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
HK lék vel í 75 mínútur í dag og var í raun um rán að ræða um hábjartan dag. Liðið átti skilið meira úr þessum leik.
HK fékk færin til að bæta við mörkum í Kórnum í dag en Blikar fengu í raun aðeins þessi tvö færi og nýttu þau.
Á sama tíma fá Blikar hrós fyrir það að gefast ekki upp. Tvö mörk á sjö mínútum undir lokin sýnir karakter.
Miðað við frammistöðuna í dag eru HK-ingar tilbúnir fyrir efstu deild. Það eru nánast allir sem spá liðinu falli en það verður hundsað í Kópavogi.
Það er skrítið að sjá leik í efstu deild í Kórnum en stemningin var þó ansi góð og ljóst að slagurinn um Kópavog lifir enn.
Mínus:
Ágúst Gylfason, þjálfari Blika, fær mínus stig í dag fyrir hvernig hann ákvað að stilla upp varnarlínu liðsins. Það er erfitt að skilja hvað hann var að reyna að gera. Vanmat?
Viktor Örn Margeirsson er miðvörður en hann lék í hægri bakverði í dag. Þrátt fyrir að hafa gert jöfnunarmarkið var spilamennska hans ekki sannfærandi. Að sama skapi spilaði Jonathan Hendrickx í vinstri bakverði en hann er hægri bakvörður.
Stigin í Pepsi-deildinni eru aldrei gefins en spilamennska Blika í dag var í raun bara léleg. HK var mun sterkara liðið og átti meira skilið.
Þrátt fyrir fjögur mörk var nokkuð um dauða kafla í leiknum og vantaði oft smá neista í bæði lið.
Jöfnunarmark Blika kom eftir aukaspyrnu í uppbótartíma. Sú spyrna var hins vegar tekin á kolröngum stað og mega heimamenn vera ansi súrir vegna þess.