fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
433Sport

Guðni setur spilin á borðið: ,,Veit ekki hvernig Geir fær það út að ímyndin hafi beðið hnekki“

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 8. febrúar 2019 20:00

Guðni Bergsson er fyrrum formaður KSÍ og býður sig nú fram að nýju.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég tel að okkur hafi tekist vel til á þessum tveimur árum,“ sagði Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, þegar blaðamaður heimsótti hann í höfuðstöðvar KSÍ í vikunni. Starfsfólk KSÍ er á fullu að undirbúa ársþing sambandsins sem fram fer á laugardag. Þar mun Guðni setja verk sín í dóm aðildarfélaganna. Geir Þorsteinsson er í framboði gegn Guðna og sækist aftur eftir starfinu. Framboð Geirs hefur vakið athygli, enda eru tvö ár síðan að hann kaus sjálfur að láta af störfum og var kjörinn heiðursformaður sambandsins. Taldi hann sig hafa lokið sínum verkum en hlutirnir breyttust fljótt og nú er Geir mættur aftur og sækist eftir gamla starfinu sem Guðni tók við í febrúar árið 2017.

„Þetta hafa verið tvö stórmót á þessum tveimur árum hjá mér. Evrópumót kvenna og úrslit Heimsmeistaramóts karla í fyrsta sinn og það er auðvitað frábær árangur fyrir íslenskan fótbolta í heild sinni og viðurkenning í leiðinni fyrir allt okkar starf í félögunum. Landsliðin byggja á því góða starfi. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast íslenskum fótbolta frá þessum sjónarhóli, sem formaður stjórnar KSÍ. Að takast á við allt það fjölbreytta starf sem það felur í sér. Tengslin við aðildarfélögin, starfið á erlendum vettvangi og að gera okkur gildandi þar, og, eins og ég sé þetta sem stjórnandi, að þróa okkar starf. Hér er unnið gott starf og við erum að reyna bæta það enn frekar, með starfsfólki okkar og stjórn. Ég er sáttur við hvernig þetta hefur gengið.“

Guðni hefur farið í ýmsar breytingar á störfum KSÍ á þessum tveimur árum, en hvað er það helsta?

„Við gerðum breytingar á skrifstofunni, fórum í stefnu- og skipuritsvinnu og ég tel að fjármála- og markaðsstarf okkar hafi skilað sér í sterkara og öflugra KSÍ. Við höfum aukið tekjurnar verulega, sérstaklega tekjur sem sambandið hefur sjálft aflað, og breikkað tekjugrunninn. Við héldum tónleika í fyrra og verðum með tvenna tónleika með Ed Sheraan í ár. Svo gerðum við einnig vörumerkjasamninga erlendis . Í öllum þáttum rekstursins höfum við verið að fara yfir starfið og reyna að bæta í þar sem við getum. Með nýju knattspyrnusviði þá er líka fótboltinn settur á oddinn. Við getum ekki hallað okkur aftur og haldið að við séum alveg með þetta, við þurfum að halda áfram að sækja fram.“

Eðlileg samningsgerð

Guðni hefur mátt þola gagnrýni fyrir að stækka samninga sambandsins við bakhjarla. Geir Þorsteinsson hefur sagt að þetta hafi komið sér illa fyrir félögin í landinu. En Guðni segir að slíkir samningar skili sér í einum eða öðrum hætti til aðildarfélaga KSÍ.

„Það er skylda formannsins að auka tekjurnar, auka sjálfaflafé, ef svo má að orði komast. Það er ekkert annað þar að baki en efla okkar þjónustu eða starf og geta stutt betur við aðildarfélögin. Við höfum aukið tekjurnar um 100 milljónir í venjulegu ári og tekið sjálfaflað fé úr um 3 prósentum í um tíu prósent. Það hjálpar okkur að halda áfram að greiða kostnað við dómara sem er í dag um 170 milljónir. Sá kostnaður hefur vaxið mjög eins og önnur laun í landinu, við erum að gera þetta með það að markmiði að geta haldið því áfram. Við erum nú með sex bakhjarla eins og áður fyrr og það var kominn tími til að endurnýja þá samninga. Við sömdum við þá á eðlilegum forsendum og því hefur verið haldið fram, að samningar við tvö fyrirtæki hefðu haft áhrif á styrki til aðildarfélaganna. Ég kannaði það mál sérstaklega en viðkomandi fyrirtæki könnuðust ekki við að svo hafi verið. Við höfum samt komið á móts við þessi sjónarmið og komið með mótvægisaðgerðir vegna lækkunar á styrkjum og reynum að gera eins vel og við getum fyrir félögin.“

Réð Hamrén Segir ómaklegt að halda því fram að ráðningin hafi ekki verið fagleg.

Vill hafa allt uppi á borðum

Guðni segist hafa reynt að auka gagnsæi innan KSÍ og laun formanns KSÍ hafa verið opinberuð í fyrsta sinn. „Mér finnst það mikilvægt að hér ríki gagnsæi. Að samningar sem ég leiði og geri séu kynntir fyrir stjórninni og allt sé uppi á borðum. Laun mín voru gerð opinber um leið og ég tók við. Það er bara eðlilegt í nútíma samfélagi í samtökum eins og KSÍ eru. Við birtum allar fundargerðir stjórnar og nefnda . Við höfum bætt þessa hluti.“

Að ráðningu þinni á Erik Hamrén hjá karlalandsliðinu. Geir hefur sagt að hún hafi í raun ekki verið fagleg. Hvernig svarar þú því?

„Ég kannast ekki við það. Það var farið í þá ráðningu eftir umboði stjórnar. Ég leiddi þær viðræður í samráði við landsliðsnefnd og stjórn þegar á þurfti að halda. Á síðari stigum kom framkvæmdastjóri að. Ég leitaði mér víða ráða og ég tel mig líka hafa ágætis þekkingu og innsæi til að leiða þannig vinnu. Ég held að það hafi verið mjög faglegt ferli og ég átta mig ekki á því til hvers er verið að vísa. Það var ómaklegt að segja að ferlið hafi ekki verið faglegt.“

Hvað með orð Geirs um að ímynd KSÍ hafi hreinlega hrunið þegar karlalandsliðið tapaði stórt í Þjóðadeildinni síðasta haust gegn Sviss?

„Ég átta mig ekki á því. Ég tel að ímyndin hafi batnað og styrkst á síðustu tveimur árum. Við áttum frábæran tíma á HM í Rússlandi, ég veit ekki hvernig hann fær það út að ímyndin hafi beðið hnekki. Sem dæmi töpuðu Króatar stórt gegn Spáni, svona er fótboltinn stundum. Við áttum ekki góðu gengi að fagna, en glímdum við ótrúleg meiðsli í hópnum og vorum með nýtt þjálfarateymi. Einnig vorum við að spila við mörg af sterkustu landsliðum heims og ég held að flestir skilji stöðuna. Ég er mjög brattur fyrir undankeppni EM 2020 og heyri það, bæði á landsliðsmönnum og þjálfarateyminu, að það sé gríðarlegur hugur í mannskapnum. Eins jákvætt og frábært árið 2018 var, vegna HM, þá ollu úrslitin vonbrigðum.“

Skoðanaskipti í stórri hreyfingu

Knattspyrnusambandið er stærsta sérsamband Íslands og eðlilegt að gagnrýni komi upp. Sú helsta sem Guðni hefur þurft að sæta kemur frá félögum í efstu tveimur deildunum, Íslenskum toppfótbolta. Samtökin vilja meiri athygli og meira fjármagn frá KSÍ. „Það eru auðvitað skoðanaskipti í stórri hreyfingu, þannig hefur það alltaf verið og jafnvel meiri gagnrýni fyrir nokkrum árum. Við höfum verið að reyna að ná sáttum um ákveðin mál og koma þeim áfram. Fulltrúar ÍTF eru þeir sömu og kjósa okkur inn í stjórn KSÍ. Við erum að eiga við sjálfa okkur, ef svo má segja. Ég held að þetta samstarf sé að þróast og taka á sig skýrari mynd, það er ábyrgð þeirra sem koma þessu áfram. Hér innandyra erum við meðvituð um að við erum í samskiptum við ÍTF, en við hugsum líka um heildina, allar deildir. Við vitum samt að sviðsljósið og fjárhagslegir hagsmunir eru mestir í efstu tveimur deildunum, en við hugsum um allar deildir hjá KSÍ.“

Hvernig finnst þér sú hugmynd að stofna sérstök deildarsamtök innan veggja KSÍ, hvernig hugnast þér sú útfærsla?

„Mér finnst það ekki vera góð útfærsla og veit ekki hvort að hún sé alveg úthugsuð. Að opna aðra skrifstofu í kringum KSÍ finnst mér ekki skynsamlegt. Opna annað KSÍ, ef svo má segja, samkvæmt því skipuriti sem hann hefur lagt fram. Ég er ekki viss um hvort það sé leiðin fram á við, þegar verið er að bera einhverja hluti saman. Bara eins og norska úrvalsdeildin er fjórtán eða fimmtán sinnum stærri miðað við veltu. Við þurfum að hafa það í huga þegar við veltum svona hlutum fyrir okkur.“

Það hefur mikið verið rætt hjá aðildarfélögunum að skrifstofa KSÍ megi ekki þenjast meira út. Geir hefur talað þannig líka, er Geir ekki í mótsögn við sjálfan sig þarna? Hver er þín skoðun á því?

„Þarna er mikil mótsögn. Við erum með víðtækt hlutverk, mótahald, fræðslu, landsliðin og höfum kostnaðarvitund um þessa hluti. Við erum alls ekki að blása út en við erum kannski að fjölga stöðugildum um tvö samkvæmt nýju skipuriti. Annað af þeim stöðugildum á að afla tekna og viðhalda þeim tekjum sem við erum að afla. Hin nýja staðan er til að efla fótboltann á knattspyrnusviðinu, til aðstoðar við félögin. Við erum með sautján hér á skrifstofu og tvo í mannvirkjum, sem dæmi eru Færeyingar með fjórtán á skrifstofu, Malta, sem er 450 þúsund manna þjóð, er með tæplega sextíu. KSÍ er lítið samband þar sem starfsfólk vinnur mikið og reynir að aðstoða hvert annað. Það kemur ekki heim og saman við gagnrýni um að KSÍ sé að blása út.“

Ekki pantað viðtal

Það vakti athygli þegar Aleksander Ceferin, forseti UEFA, steig fram á dögunum og talaði vel um störf Guðna og hvernig hann hefði aukið virðingu KSÍ utan landsteinanna. Geir var bálreiður enda ljóst að svona orð frá valdamesta einstaklingi í fótboltanum í Evrópu hafa áhrif. „Ég get ekki svarað fyrir það sem forseti UEFA segir um mig, hann vissulega hrósaði mér. Mér þótti vænt um það, ég tek því sem hvatningu fyrir mig og sem hrósi til íslenskrar knattspyrnu. Ég held að þetta sanni sterka stöðu okkar erlendis. Ég held að hún hafi svo sannarlega ekki veikst með komu minni. UEFA fór í fyrsta sinn í stefnumótun, sem er í raun með ólíkindum. Þar voru fimm úr framkvæmdastjórn UEFA, svo voru fjórir einstaklingar úr hópi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda í Evrópu beðnir um að koma inn. Ég var einn af þeim. Ég held að það hafi verið viðurkenning fyrir starf okkar, að koma að því að móta evrópskan fótbolta að einhverju leyti. Ceferin virðist treysta mér og bað mig um að taka sæti sitt í aganefnd FIFA, sem hann varð að láta eftir þegar hann tók við UEFA,“ segir Guðni.

En pantaðir þú þetta viðtal hjá Ceferin við Stöð2?

,,Svona hlutir fara í gegnum skrifstofu hans og fjölmiðlafulltrúa hans. Ég veit ekki hvernig það kom til.“

Vildi ekki taka við bónusgreiðslum líkt og Geir

Það vakti athygli þegar Geir Þorsteinsson, þá formaður KSÍ, tók við bónusum eftir Evrópumótið í Frakklandi árið 2016. Um var að ræða bónusa sem samsvöruðu tveggja mánaða launum. Aðrir starfsmenn fengu mánaðar laun í bónus. Eftir heimsmeistaramótið síðasta sumar fékk starfslið KSÍ í Rússlandi bónus, en hvað með Guðna? „Það voru greiddir út bónusar til starfsliðs á EM 2016 og til þáverandi formanns. Síðasta sumar eftir HM fékk starfsfólk KSÍ bónusgreiðslur en þær voru lægri. Ég taldi það ekki vera eðlilegt að þiggja slíkt og tók ekki bónusa.

Jákvæðir hlutir í kosningabaráttu

Guðni segir það jákvætt við svona kosningabaráttu að fara út í félögin, eiga þar fundi og ræða málefnin og hvaða skref eigi að taka. „Það er það jákvæða í þessu, maður tekur því þannig. Við erum að undirbúa ársþing og skila ársreikningi á þessum tíma, það er mikið að gera. Við fórum í skipulagðar heimsóknir til aðildarfélaga á síðasta ári, sem hafði ekki verið gert í mörg ár. Það er alltaf jákvætt að eiga samtöl við aðildarfélögin og það er gott að kynna sín mál. Það eru ekki allir sem átta sig á því sem við erum að gera, hvað starfið er fjölbreytt. Það er ekki allt fréttaefni og því er gaman að kynna það fyrir félögunum. Ég fullyrði að hér í KSÍ er verið að vinna mjög gott starf, við höfum eflst, við erum að horfa fram á veginn. KSÍ er á betri stað í dag en fyrir tveimur árum.

Ég kynni stoltur okkar verk og er ánægður með það sem við höfum náð að hrinda í framkvæmd. Við erum alls ekki búin að klára öll okkar verkefni og það eru mörg mál í góðum farvegi,“ segir Guðni og telur upp endurgreiðslu á byggingarkostnaði við íþróttamannvirki. KSÍ sé að vinna að framgangi þess máls með öðru góðu fólki innan Alþingis og utan. Einnig er unnið að tillögum um jöfnun ferðakostnaðar sem sérstaklega myndi koma sér vel fyrir félög á landsbyggðinni. Þá vonar Guðni að ákvörðun verði tekin um nýjan Laugardalsvöll síðar á þessu ári. „Ég hef svo sannarlega verið að ýta á það; að sú vinna verði kláruð. Það er búið að stofna undirbúningsfélag og tilnefna stjórnarmenn. Við verðum að klára það mál. Ég held að við munum komast að niðurstöðu seinna á árinu og hún mun verða jákvæð fyrir íslenskan fótbolta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Eru sagðir undirbúa það að kynna Rashford í þessari viku

Eru sagðir undirbúa það að kynna Rashford í þessari viku
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Staðfesta ráðninguna á Elísabetu

Staðfesta ráðninguna á Elísabetu
Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Þetta hafa veðbankar að segja um leikinn mikilvæga hjá Strákunum okkar í kvöld

Þetta hafa veðbankar að segja um leikinn mikilvæga hjá Strákunum okkar í kvöld
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

11 milljarða maðurinn flýgur til Englands á morgun

11 milljarða maðurinn flýgur til Englands á morgun
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Reiddist mjög út í fréttamann ríkissjónvarpsins – „Frábær leið til að hefja viðtal“

Sjáðu myndbandið: Reiddist mjög út í fréttamann ríkissjónvarpsins – „Frábær leið til að hefja viðtal“
433Sport
Í gær

Walker færist nær því að yfirgefa City

Walker færist nær því að yfirgefa City
433Sport
Í gær

Sló í gegn með þessum myndum á Íslandi – Flytur nú leiðinleg tíðindi

Sló í gegn með þessum myndum á Íslandi – Flytur nú leiðinleg tíðindi