Emil Hallfreðsson hefur skrifað undir hjá Calcio Padova á Ítalíu. Þetta herma heimildir 433.is en þetta verður tilkynnt á næstu dögum.
Emil hefur verið án félags síðan í sumar, þegar samningur hans við Udinese rann út. Hann hefur síðan þá æft með FH.
Emil hefur beðið eftir rétta tilboðinu en það hefur látið á sér standa, hann skoðaði aðstæður hjá Padova á dögunum.
Padova er í fjórða sæti í Seriu-C og á fínan möguleika á að komast upp. Emil er 35 ára og hefur spilað á Ítalíu frá 2010.
Emil var ekki í síðasta landsliðshópi sökum þess að hann hefur ekki haft félagslið í hálft ár.