Jose Mourinho var í essinu sínu í gær er lið Tottenham fékk Olympiakos í heimsókn. Um var að ræða leik í Meistaradeildinni en þetta var í annað sinn sem Mourinho stýrir enska liðinu.
Hann sá sína menn lenda 0-2 undir gegn þeim grísku í kvöld og var útlitið ekki alltof bjart. Tottenham sneri leiknum hins vegar sér í vil og vann að lokum 4-2 sigur og er komið í 16-liða úrslit.
Í öðru marki Tottenham var það boltastrákurinn sem kom að markinu, hann las leikinn vel og kastaði honum fljótt til Serge Aurier sem kom boltanum í leik, það endaði með marki.
,,Ég elska vel gefna boltastráka, hann las leikinn og lagði upp mark,“ sagði Mourinho.
,,Ég var boltastrákur frá 10 til 16 ára, mjög góður boltastrákur og hann var mjög góður boltastrákur. Hann las leikinn og var ekki að horfa upp í stúku.“
,,Ég vildi bjóða honum inn í klefa og fagna með leikmönnum en hann var horfinn.“