Knattspyrnumaðurinn, Aron Sigurvinsson hefur greint frá því að hann berjist nú við krabbameini. Þessi veikindi Arons komu í ljós eftir að hann lenti í alvarlegu bílslysi. Sagt var frá slysinu í sumar.
Þann 5.ágúst lenti gæðablóðið Aron í alvarlegu bílslysi við Rauðhóla. Hann var í tíu daga á gjörgæslu en hefur verið á batavegi. Aron spilaði með Elliða árið 2018 og þar áður með 2. flokki Fylkis. Í fyrra spilaði hann með Fjarðabyggð og Huginn í 2. deildinni. Í byrjun sumars spilaði hann einn leik með Hetti/Huginn í 3. deildinni.
Aron er með krabbamein í hálsi en það kom í ljós eftir hálsbrot í bílslysinu. ,,Ég greindist með krabbamein sem fannst í rannsóknum á hálsbrotunum í bílslysinu og er ég núna að fara byrja í meðferð gegn því,“ skrifar Aron á Instagram.
Aron er brattur fyrir komandi slagi. ,,Ég mun tækla þetta verkefni eins og ég er að tækla slysið, vil þakka öllum fyrir ómetanlegan stuðning síðustu mánuði“
Aron er fæddur árið 1998 og er því 21 árs gamall, við sendum honum baráttukveðjur í þessu verkefni sem bíður hans. Hann hefur verið í endurhæfingu á Grensás en landsliðsmennirnir, Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason hemimsóttu hann á dögunum.
Gylfi og Alfreð heimsóttu Grensás í gær: Aron sem var í tíu daga á gjörgæslu í skýunum