Ólafur Jóhannesson mun klukkan 15:00 í dag verða ráðinn þjálfari Stjörnunnar, hann mun stýra liðinu ásamt Rúnari Páli Sigmundssyni í Pepsi Max-deild karla. Þetta herma öruggar heimildir 433.is
Rúnar Páll er á leið í sitt sjöunda tímabil sem þjálfari Stjörnunnar en Ólafur mun stýra skútunni með honum.
Ólafur lét af störfum sem þjálfari Vals í haust eftir fimm ára starf, félagið vildi ekki halda honum lengur og réð Heimi Guðjónsson í starfið.
Samkvæmt heimildum 433.is mun Ólafur stýra liðinu með Rúnari, aðstoðarmenn Rúnars frá síðustu leiktíð eru horfnir á braut. Það hefur opnað dyrnar fyrir Ólaf að stíga inn en Stjarnan endaði í fjórða sæti Pepsi Max-deildarinnar í ár, og missti af Evrópusæti.
Síðasta tímabil Ólafs með Val var ekki gott en hann vann fjóra titla á fyrstu fjórum árum sínum á Hlíðarenda, tvo bikarmeistaratitla og tvo Íslandsmeistaratitla.
Ólafur er einn öflugasti þjálfari í sögu Íslands og Rúnar hefur unnið frábært starf í Garðabæ, áhugavert verður að sjá hvernig samstarf þeirra mun virka.