Það er ný stjarna komin upp á sjónarsviðið í knattspyrnunni en sá strákur ber nafnið Erling Braut Haland. Haland er 19 ára gamall Norðmaður en hann skrifaði undir samning við RB Salzburg fyrr á þessu ári. Haland kom til félagsins frá Molde í Noregi þar sem hann skoraði 14 mörk í 39 deildarleikjum sem táningur. Strákurinn er einn allra efnilegasti leikmaður heims og er byrjaður að raða inn mörkum með Salzburg.
Norðmaðurinn hefur raðað inn mörkum frá Salzburg og skoraði tvö gegn Napoli í Meistaradeildinni í síðustu viku.
Stuðningsmenn Manchester United grátbiðja félagið nú að kaupa norska framherjann, frekar en Mario Mandzukic sem er orðaður við félagið. Ole Gunnar Solskjær, stjóri United þarf hins vegar ekki að sjá mikið af Haland. Hann þjálfaði hann í Molde og gaf honum sinn fyrsta leik í meistaraflokki. Samband þeirra er gott og telja ensk blöð að Solskjær hafi bestu spilin á hendi. Það sem talið var að gæti unnið gegn United er að Erling er sonur Alf-Inge Håland, ferill hans fór í vaskinn eftir gróft brot frá Roy Keane, þá fyrirliða United. Alf-Inge Håland lék þá með Leeds.
Forráðamenn Napoli hafa skoðað norska framherjann en hafa gefist upp, þeir telja að hann fari til Manchester United.
,,Hann er í frábæru liði og þetta gefur honum stökkpall í stærra lið,“ sagði Loris Boni, útsendari Napoli um Haland.
,,Ef samlandi hans Solskjær verður áfram stjóri Manchester United, þá held ég að hann fari þangað. Solskjær gaf honum frumraun sína í Molde, hann hefur þjálfað hann hjá félagsliði.“