Glen Johnson, fyrrum leikmaður Liverpool segir að hann vilji ekki eiga vini sem eru rasistar. Johnson segir þetta nú þegar leikmenn Liverpool eru að biðjast afsökunar á framkomu sinni árið 2011 þegar Luis Suarez, þá framherji Liverpool var dæmdur í átta leikja bann vegna kynþáttaníðs í garð Patrice Evra, þá leikmanns Manchester United.
Suarez var dæmdur í bann fyrir að niðurlægja Evra. Suarez hafði þá sparkað til Evra sem spurði hvað hann væri að gera. ,,Af því að þú ert svartur,“ var svarið frá Suarez. Evra bað Suarez um að endurtaka svar sitt því hann ætlaði að berja hann í andlitið. ,,Ég tala ekki við svertingja,“ svaraði Suarez og notaði orðið negro sjö sinnum samkvæmt dómnum.
Það vakti svo gríðarlega athygli í kjölfarið þegar leikmenn Liverpool mættu í upphitun fyrir leik gegn Wigan, í bol með mynd af Suarez. Manni sem hafði verið dæmdur fyrir kynþáttaníð deginum áður. Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool bað Evra afsökunar í vikunni og Johnson tekur í sama streng.
,,Carra gerði rétt með því að biðjast afsökunar og ég verð að gera það sama. Það var rangt af okkur að klæðast þessum bolum,“ sagði Johnson sem var í herbúðum Liverpool árið 2011.
,,Til að verja félagið, þá var það bara að verja sinn mann. Ég held að enginn í klefanum hafi trúað því að Luis væri rasisti. Ég þekki Luis vel og kann vel við hann, ég trúi þvi ekki að hann hafi gert þetta.“
,,Þetta var flókin staða fyrir mig, ég vil ekki eiga vini sem eru rasistar og ég og Luis vorum næáninu. Ég myndi alltaf snúa baki við þeim sem væri rasisti,“ sagði Johnson sem virðist aðeins tala í hringi.