Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason voru í gær mættir á Grensás, endurhæfingadeild Landspítalans.
Þar heimsóttu þeir meðal annars Aron Sigurvinsson sem þann 5. ágúst síðastliðinn lenti alvarlegu bílslysi við Rauðhóla. Hann var í tíu daga á gjörgæslu en er blessunarlega á batavegi. Við tekur langt og strangt endurhæfingarferli sem mun reyna mikið á bæði hann og fjölskyldu hans.
Aron er 21 árs gamall og var virkur í fótboltanum fyrir slysið. Íslendingavaktin fjallar meðal annars um málið.
,,Þeir fengu loksins mynd,“ skrifar Aron á Instagram og virðist í skýjunum.
Gylfi og Alfreð eru að undirbúa sig undir stórleik gegn Frökkum á morgun en gáfu sér tíma í gær til að heilsa upp á fólkið á Grensás. Á endurhæfingardeild Landspítalans er sinnt fjölbreyttum hópi sjúklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa tapað færni, tímabundið eða varanlega vegna slysa eða veikinda.