Ensk blöð halda því fram að leikmenn Manchester United og þjálfarar hjá félaginu vilji að Ole Gunnar Solskjær fái starfið sem knattspyrnustjóri, til framtíðar.
Solskjær tók við United í desember en var bara ráðinn tímabundið, út þessa leiktíð. Sex sigrar í fyrstu sex leikjunum hafa gefið honum von um að fá starfið til framtíðar.
Solskjær fékk starfið eftir að Jose Mourinho var rekinn úr starfi en Daily Mail fjallar um hvernig samksipti hans voru við þjálfara undir lokin.
Sagt er að Mourinho hafi komið illa fram við Michael Carrick og Kieran McKenna sem voru í teymi hans. Hann hætti að ræða við þá og hélt fundi án þess að boða þá.
Þegar Mourinho var kominn út í horn undir restina, hætti hann að ræða við þá. Hann vildi frekar funda með vinum sínum frá Portúgal sem voru í teymi hans. Carrick og McKenna voru báðir ráðnir í teymi Mourinho síðasta sumar.
Mourinho hætti að ræða við þá en Solskjær losaði sig við alla aðstoðarmenn Mourinho frá Portúgal. Carrick og McKenna héldu hins vegar starfinu og fá nú að vera með í ráðum.