Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður Burnley var á skotskónum í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Hann skoraði þá í góðu 3-0 sigri liðsins á Southampton. Jóhann ræðir um málið við Morgunblaðið.
Jóhann var í byrjunarliði liðsins en þar hefur hann átt fast sæti síðustu ár, ef heilsa hans leyfir. Jóhann var talsvert mikið meiddur á síðasta tímabili sem reyndist honum erfitt.
„Mér líður mjög vel í líkamanum og ég náði heilu undirbúningstímabili með liðinu, sem er mjög jákvætt fyrir mig. Ég hef haldist heill og planið er að sjálfsögðu að halda því áfram út tímabilið. Síðasta sumar var skrítið þar sem ég var á HM í Rússlandi, maður fékk svo stutt frí eftir mótið og mætti svo beint inn í undankeppni Evrópudeildarinnar með Burnley. Ég fékk þess vegna ekki þennan ákveðna grunn sem undirbúningstímabilið gefur manni, hvorki hlaupin né styrktaræfingarnar, sem hjálpa manni í gegnum langt tímabil og ég fann fyrir því. Síðasta tímabil var erfitt fyrir mig persónulega og markmiðið er að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að eiga gott tímabil með Burnley á þessari leiktíð,“ sagði Jóhann við Morgunblaðið.
Bæðii eftir EM í Frakklandi og HM í Rússlandi, hefur líkami Jóhanns ekki höndlað breyttar aðstæður.
„Seinni hluti síðasta tímabils var erfiður fyrir mig en tímabilið þar á undan spilaði ég í raun flestalla leiki. Ég hef tekið eftir því að þegar ég hef farið á stórmót hefur það setið aðeins í mér. Tímabilið eftir EM 2016 var smá ströggl fyrir mig, alveg eins og tímabilið eftir HM 2018. Maður veit aldrei í þessum blessaða bolta og það er ekki hægt að ganga að neinu vísu en meiðslalega séð hafa tímabilin eftir síðustu stórmót verið mér erfið. Það er ákveðið álag og það kemur kannski meira niður á manni þegar aðrir leikmenn liðsins fá fulla hvíld. Auðvitað vill maður samt sem áður spila á þessum stórmótum fyrir Ísland og maður þarf kannski aðeins að læra það, eftir þessi mót, hvernig maður nær sér aftur líkamlega.“