Kolbeinn Birgir Finnsson er að ganga í raðir þýska stórliðsins Borussia Dortmund samkvæmt heimildum 433.is. Hann skrifar undir á næstu dögum.
Kolbeinn er fæddur árið 1999 en hann fagnar 20 ára afmæli sínu þann 25. ágúst næstkomandi.
Kolbeinn hefur leikið með Fylki í Pepsi-Max deild karla í sumar – þar hefur hann spilað 13 leiki og skorað tvö mörk.
Hann er þó ekki í eigu Fylkis en félagið fékk hann lánaðan frá enska félaginu Brentford fyrr í sumar.
Kolbeinn er þó uppalinn hjá Fylki en hann samdi við Groningen árið 2016 og fór síðar til Brentford.
Einnig á Kolbeinn að baki fjölmarga landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur tvisvar spilað fyrir aðalliðið.
Dortmund er félag sem allir kannast við en liðið hefur lengi verið eitt það sterkasta í efstu deild í Þýskalandi.
Dortmund mun kaupa Kolbein í sínar raðir og skrifar hann undir þriggja ára samning við félagið.
Kolbeinn fetar því í fótspor Atla Eðvaldssonar en hann lék með Dortmund frá 1980 til 1981 og skoraði 11 mörk í 30 leikjum.