Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, lék með liði Vals í 3-2 tapi gegn KR í Vesturbænum í kvöld.
Hannes og félagar töpuðu 3-2 gegn KR í hörkuleik eftir að hafa verið 2-0 yfir. Hann var að vonum svekktur í leikslok.
,,Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Þetta hefði verið stórt fyrir okkur að vinna hérna og við vorum 2-0 yfir og það er lélegt að missa svoleiðis forystu niður,“ sagði Hannes.
,,Við erum að hleypa þeim of nálægt okkur inn í teiginn í seinni hálfleik og þeir voru hættulegir í fyrri hálfleik líka en það dettur þarna inn mark og það gefur þeim blóð á tennurnar og fljótlega annað. Þetta var bara fram og til baka.“
Síðar var Hannes spurður út í þær sögusagnir um hvort það hafi verið í hans samningi hjá Val að hann mætti fara í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar um helgina.
Talað hefur verið um að Hannes hafi aldrei verið meiddur, heldur hafi fengið grænt ljós fyrir löngu á að fara í brúðkaupið.
,,Það stendur ekki einn stafur í mínum samningi um brúðkaupið hans Gylfa Sig, ég get lofað þér því.“
,,Ég verð nú bara að fá að segja nokkur orð um þetta mál. Í fyrsta lagi þá meiddist ég í þessum landsleik, það er staðreynd.“
,,Ég gæti alveg farið út í smáatriðin en þetta er ekki staður og stund til þess, það tekur of langan tíma. Ég get gefið ykkur símanúmerið hjá öllum þremur sjúkraþjálfurum landsliðsins eða lækni liðsins eða sjúkraþjálfara Vals ef þið viljið fá nánari staðfestingu á því.“
,,Ég taldi mig hafa hingað til á mínum ferli sýnt það að það þurfi ekki að efast um fagmennsku mína gagnvart þeim klúbbum sem ég spila fyrir.“
,,Ég hef aldrei skorast undan skildum mínum sem fótboltamaður og þvert á móti þá hef ég lagt á mig aukalega til að vera í eins góðu standi og ég get fyrir þau lið sem ég spila fyrir. Þannig hef ég alltaf litið á fótbolta og það mun ekki breytast.“
,,Þess vegna finnst mér helvíti ódýrt að það sé reynt að gera þessa stuttu ferð mína til Ítalíu tortryggilega með öllum mögulegum aðferðum í æsifréttastíl. Þegar ég hefði ekki einu sinni getað tekið þátt í leiknum vegna meiðsla. Það er alltaf leiðinlegt að missa af leikjum vegna meiðsla en Valsmenn eru sem betur fer vel settir í markmannsmálum.“
Hannes segist hafa þurft að svara fyrir sig eftir leikinn í kvöld þó að það sé óvenjulegt. Hann neitar þeim ásökunum út í gegn að hann sé að snúa baki í félagið.
,,Þetta er óvenjulegt. Það er ekki alltaf mælt með því að maður mæti svona og svari svona dóti í viðtölum en ég bara get ekki orða bundist þegar ég þarf að sitja undir því að ég sé að snúa baki við liðsfélögunum, að ég sé að setja Óla Jó í erfiða stöðu, að ég sé að gera lítið úr deildinni, að ég sé að gera lítið úr klúbbnum mínum og að hlusta á einhverjar hlægilegar pælingar um að Óli sé að testa hug minn.“
,,Þegar staðreyndin og sannleikurinn er sú að í ljósi aðstæðna þá hvatti Óli mig eindregið til að fara, hann bað bara kærlega að heilsa Gylfa og óskaði mér góðrar skemmtunar.“
Nánar er rætt við Hannes hér fyrir neðan.