Sumir tala um að brúðkaup aldarinnar fari fram á Ítalíu um helgina, þegar Gylfi Þór Sigurðsson og Alexandra Helga Ívarsdóttir, ganga í það heilaga. Gylfi er frægasti íþróttamaður Íslands í dag og Alexandra Helga er fegurðardrottning.
Margir af leikmönnum Íslands verða í veislunni en ekki er líklegt að Hannes Þór Halldórsson, markvörður komist. Hann á leik með Val gegn ÍBV á laugardag. Hann er með boðskort í brúkaup aldarinnar.
,,Honum er boðið í brúðkaup aldarinnar, eitthvað sem þú færð einu sinni á lífsleiðinni. Hvað ætli Óli Jó segi ef Hannes myndi hringja í hann? ´Kallinn er að fara í brúðkaup til Ítalíu´,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Dr Football, þætti sínum í dag.
Hannes gæti náð að koma sér til Ítalíu snemma á sunnudag, ekki er vitað hvort hann geri það. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, vill eflaust ekki missa sinn markvörð út.
Kristján Óli Sigurðsson, talaði ekki í kringum hlutina. Hann veit hvað hann myndi gera. ,,Þá myndi smiðurinn (Óli Jó) sennilega taka hamarinn og hamra honum í andlitið á Hannesi, ég myndi gera það alla veganna.“
Mikael Nikulásson, skilur það manna best að það þurfi að sletta úr klaufunum. ,,Ég myndi segja honum að fara, skemmtu þér. Hafa gaman, stóð sig vel í landsleikjunum. Hannes biður aldrei um það að fara, ég myndi hvetja Hannes, ef ég væri Óli til að fara, 3-4 daga frí. Anton Ari getur spilað gegn ÍBV.“