,,Samband þessara þjóða beið hnekki eftir meðferðina á landsliði okkar í Keflavík í fyrradag,“ skrifar blaðamaður Fanatik í upphafi fréttar sem hann birti í gærkvöldi.
Tyrkir eru í raun brjálaðir yfir móttökunum á Leifsstöð, þvottaburstinn frægi pirrar þá minna en biðin á vellinum. Liðið var í 80 mínútur að komast í gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli.
Ástæðan var að liðið flaug frá Konya sem er ekki vottaður flugvöllur í Evrópu, því þurfti eftirlitið í Keflavík að vera meira en venjulega.
Tyrkir hafa herjað á íslenska fréttamenn og nú herja þeir á íslenskar heimasíður. Þannig varð vefur Isavia fyrir netárás í gær, hann var lengi vel niðri.
Í dag liggur svo grunur um það að vefur KSÍ hafi orðið fyrir árás frá Tyrklandi.
„Síðan liggur niðri og Advania er að greina vandann. Það lítur út fyrir að hún hafi orðið fyrir einhvers konar árás,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ við Vísir.is.
„Það lítur ekki út fyrir að síðan hafi verið hökkuð og öll gögn eiga að vera til staðar.“