Andri Yrkill Valsson, blaðamaður Morgunblaðsins skrifar fallega grein í blað dagsins. Þar talar hann um fólkið sem styður við íþróttafélög sín, mikilvægi sjálfboðaliða og stuðningsmanna.
Andri skrifar pistilinn til minningar um Baldvin Rúnarsson, 25 ára Akureyringinn sem lést um helgina. Baldvin hafði háð harða baráttu við krabbamein til margra ára.
,,Íþróttir og íþróttafélög eru ekkert án fólksins sem stendur þeim að baki. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og stuðningsmenn mynda órjúfanlega heild sem stendur saman, félaginu sínu til heilla. Æði oft myndast sterk tilfinningabönd milli félaganna og fólksins. Þessa tengingu er bæði erfitt að útskýra, en ekki síður erfitt að rjúfa. Þessi tengsl halda í blíðu og stríðu og oft yfir móðuna miklu. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að íþróttafélögin og liðin sem leika undir þeirra merkjum gleymi ekki þeim sem standa þar að baki. Það er fólkið sem skiptir öllu máli,“ skrifar Andri í Morgunblaðið í dag.
Baldvin sagði sögu sína í janúar en hana má lesa hérna
Baldvin ólst upp í Þór, hann elskaði félagið og studdi það í blíðu og stríðu. Hann lék knattspyrnu þangað til veikindin fóru að herja á hann, hann lék með Þór upp yngri flokkana en með Magna í meistaraflokki.
„Á sunnudaginn var lék knattspyrnulið Þórs með sorgarbönd til minningar um Baldvin Rúnarsson sem lést á föstudag eftir erfið veikindi, aðeins 25 ára gamall. Til greina kom að fresta deildarleik Þórs og Þróttar, en eins og sagt er frá á heimasíðu Þórs þá sneru leikmenn bökum saman og sögðu: „Vinnum leikinn fyrir vin okkar og félaga Baldvin Rúnarsson.“
Leikmenn Þór fögnuðu mörkunum með því að benda til himins, sigurinn gegn Þrótti var fyrir Baldvin.
„Það var fallegt að sjá hvernig leikmenn minntust hans, fögnuðu mörkum sínum með því að benda til himins og tileinkuðu honum sigurinn. „Við tókum það með inn á völlinn í dag sem hann kenndi okkur með lífinu. Hann gafst aldrei upp,“ sagði Jónas Björgvin Sigurbergsson eftir leik.“
Baldvini hafði verið veitt bronsmerki Þórs helgina á undan, fyrir stuðning sinn við félagið.
„Sjálfur veit ég það að Baldvin var skilgreiningin á gallhörðum Þórsara og gott dæmi um hin órjúfanlegu tengsl sem geta myndast á milli einstaklings og íþróttafélags. Það eina sem skiptir máli er fólkið sem stendur að baki félaginu, og það gerði Baldvin svo sannarlega hjá Þór. Blessuð sé minning hans.“