KR harmar þau ummæli sem Björgvin Stefánsson lét falla um Archange Nkumu leikmann Þróttar í gær.
Björgvin, leikmaður KR í Pepsi Max-deild karla, lét ummælin falla í beinni útsendingu á Haukar TV í gær. Björgvin sá um að lýsa leik Hauka og Þróttar R. á Haukar TV en þau lið áttust við í Inkasso-deild karla.
Björgvin er fyrrum leikmaður Hauka en hann tjáði sig um Nkumu, leikmann Þróttar. ,,Þetta er það sem ég er alltaf að segja, það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin.
Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ safnar nú gögnum í máli Björgvin Stefánssonar, eftir að hann lét rasísk ummæli falla í gær. Þetta staðfesti hún í samtali við 433.is. Björgvin baðst afsökunar á ummælunum skömmu eftir að þau féllu. Ákvæði eru í reglugerð KSÍ sem gera framkvæmdarstjóra, heimilt að vísa málinu til aga og úrskurðarnefndar.
,,Stjórn Knattspyrnudeildar KR harmar ummæli, sem Björgvin Stefánsson, leikmaður KR, lét falla í gærkvöld um leikmann Þróttar, er hann lýsti leik þeirra og Hauka í Inkasso deildinni. Björgvin hefur beðist afsökunar og lýst því sjálfur að hann hafi gerst sekur um hrapalegt dómgreindarleysi. Ummæli eins og um ræðir eiga ekki erindi í umræðu um íslenskan fótbolta frekar en annars staðar;“ segir í yfirlýsingu KR.