Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum súr í kvöld eftir 1-0 tap gegn ÍA í efstu deild.
Sigurmark ÍA kom í blálok leiksins en Einar Logi Einarsson gerði það í uppbótartíma eftir hornspyrnu.
,,Högg í magann. Að fá þetta á sig í endann, það er erfitt að kyngja því. Við vorum að gefa þeim þessi föstu leikatriði,“ sagði Ágúst.
,,Ég var mjög ánægður með liðið hjá mér, hvað við náðum að spila boltanum vel. Því miður fáum við ekkert úr þessum leik en ég er nokkuð ánægður með liðið.“
,,Það er erfitt að komast í gegnum fimm manna vörn. Við skoruðum eitt mark og fengum 2-3 góð færi og fengum fá færi á okkur. Það var fast leikatriði sem kláraði þennan leik.“
Í leikslok þá rifust Ágúst og Sigurður Jónsson, aðstoðarþjálfari ÍA aðeins og við spurðum hann út í þau orðaskipti.
,,Það var ekki eins og hann væri ekki sáttur við leikinn. Ég skil þetta ekki. Hann fékk þrjú stig og ég yrði himinlifandi með það í svona leik. Þú verður að spyrja hann hvað hann var að hugsa.“