fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
433Sport

Geir ofkeyrði sig en vill snúa aftur: „Það eru örugglega margar sögur um það á kreiki“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 15:35

Geir Þorsteinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir Þorsteinsson hefur boðið sig fram á nýjan leik til formanns KSÍ og þar með skorað Guðna Bergsson, núverandi formann, á hólm. Kom þetta mörgum á óvart en Geir hætti fyrir aðeins tveimur árum. DV ræddi við Geir um ferilinn, sýn hans á fótboltann, drykkjumenninguna og óvænt hliðarspor í stjórnmálum.

Meiddist og fór ungur í stjórn

Geir er Vesturbæingur í húð og hár. Hann óx úr grasi í Vesturbænum og lék sér þar í fótbolta frá unga aldri og var fastagestur á Framnesvellinum þar sem núna er búið að byggja mikinn skóla, Vesturbæjarskóla. Þetta var Mekka knattspyrnunnar í Vesturbænum. Þegar hann fór að reka eigin heimili fluttist hann út á Seltjarnarnes, en í dag býr hann á Kársnesinu í Kópavogi.

Spilaðir þú fótbolta sjálfur?

„Já, ég var nú dálítið seinn að yfirgefa Framnesvöllinn til þess að fara niður í KR og pabbi minn var gallharður Valsari, alveg eiturharður, og vildi að ég færi í Val. Ég fór á einhverjar æfingar þar en það endaði með því að ég fór með félögunum í KR. Ég byrjaði seinna en margir, eitthvað um ellefu ára að mig minnir, en margir byrja sex eða sjö ára,“ segir Geir og bætir við sem hélt til í KR þar til hann byrjaði ungur að árum að vinna fyrir KSÍ.

Hvernig atvikaðist það?

„Ég æfði í yngri flokkunum og gekk ágætlega í fótboltanum og var alltaf fyrirliði í B-liðinu. Svo báðu þeir mig að fara að dæma þegar ég var ungur, þá ekki nema sextán ára, ég tók þá dómarapróf. Það vantar alltaf einhvern til að hjálpa félaginu að dæma alla þessa leiki. Hálfu ári seinna báðu þeir mig að þjálfa, en ég mætti nú ekki á fyrstu æfinguna. Ég hélt þeir væru að grínast í mér,“ segir Geir og hlær. Geir var þá að þjálfa krakka í sjötta flokki.

Ekki leið á löngu þar til Geir fór að skipta sér að knattspyrnumálum í Reykjavík og niðurröðun leikja, aðeins átján eða nítján ára. Það fór svo að hann var beðinn að sjá alfarið um niðurröðun á leikjum.

„Svo fékk ég alltaf meira og meira að gera hjá KR, var settur í pappírana og fékk þau skilaboð að framtíð mín væri ekki á vellinum,“ segir Geir og glottir. „Ég varð svo framkvæmdarstjóri KR og stjórnarmaður um miðjan þrítugsaldur.“

Dreymdi þig um að verða atvinnumaður?

„Ég segi oft að það sem er skemmtilegast við fótbolta er að spila leikinn. Og ég hélt því alveg áfram, en eftir tvær minniháttar aðgerðir á vinstra hné þá sagði læknirinn: „Ef þú heldur áfram þá þarf að gera stóraðgerð, þannig að þú verður að hætta að sparka í bolta.“ Mat læknirinn það svo að hnéð hefði gefið sig eftir ótal æfingar þar sem hann var að þjálfa og endurtekið að spyrna boltanum til krakkanna. Geir var við þjálfun í um tíu ár.

Bætir Geir við að þessi tími, þegar hann þjálfaði yngri flokka, hafi verið sá ánægjulegasti á ferlinum, einstaklega gefandi og skemmtilegur. Dómaraflautuna lagði hann á hilluna eftir að hann varð framkvæmdastjóri KR. Fannst honum það einfaldlega ekki við hæfi að starfa fyrir knattspyrnufélag og dæma hjá öðrum liðum á sama tíma.

Ofkeyrði sig Geir segist hafa misst gleði í starfi en hafi nú nýja sýn á hlutina.

Vantaði gleðina

Eftir menntaskólann hóf Geir háskólanám en fann sig ekki þar. Einn vetur kenndi hann stærðfræði á Laugarvatni en knattspyrnan togaði alltaf í hann. Upp úr 1990 fór Eggert Magnússon, formaður KSÍ, að bera víurnar í Geir en hann var tregur til að skilja við KR. Fór hann loks yfir til sambandsins um áramótin 1992/1993 og gerðist skrifstofustjóri. Innan KSÍ vann hann sig upp í stöðu framkvæmdastjóra árið 1997 og varð formaður árið 2007. Þeirri stöðu gegndi hann í áratug.

Af hverju hættir þú?

„Það eru örugglega margar sögur um það á kreiki. Ég var bara sprunginn. Ég ofkeyrði mig og það vantaði gleðina í starfið. Þannig að ég hugsaði að ég yrði að fá frí frá þessu öllu. KSÍ var í betri stöðu en nokkurn tímann, íþróttalega og fjárhagslega, betri en öll þessi ár sem ég hef verið að berjast þarna. Okkur tókst að safna í sjóði síðustu árin,“ segir Geir og bætir við að KSÍ hafi átt um hálfan milljarð þegar hann kvaddi.

Þú hefur talað um að KSÍ sé ekki á góðum stað í dag?

„Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að það er erfitt að reka knattspyrnudeild. En reksturinn hefur vaxið mikið síðastliðinn áratug og það er erfitt að reka félögin. Það er forystukreppa í knattspyrnuhreyfingunni, í aðildarfélögunum, og erfitt að fá sjálfboðaliða til starfa. Yngri kynslóðir líta öðruvísi á sjálfboðaliðastarf en þær eldri. Ástæðan fyrir því að ég er að koma til baka er að ég hef nýja sýn á hvernig við eigum að gera og skipuleggja okkar starf í knattspyrnuhreyfingunni,“ segir Geir og kveðst einnig hafa þroskast á þessum tíma. „Þetta er ekki módel sem ég var að finna upp. Það er búið að vera í Skandinavíu í áratugi og Englandi í heila öld. Mín sýn á KSÍ í dag er sú að veik aðildarfélög veikja KSÍ. Við þurfum að styrkja grunninn og aðildarfélögin til að ná framförum.“

Berð þú einhverja ábyrgð á þessari stöðu sem þú ert að gagnrýna?

„Auðvitað ber ég ábyrgð á því hvar íslensk knattspyrna er stödd. Ég er ekki óánægður með stöðuna í íslenskri knattspyrnu. Ég kom inn í KSÍ og byrjaði að láta mig dreyma. Ég sá hvað við vorum komin langt á eftir hinum Norðurlöndunum og þurftum að byggja mikið upp. Við höfum sótt í okkur veðrið og byggt upp frábært knattspyrnusamband og vel rekið að mínu viti. Ég byrjaði að segja það við fólkið sem þar starfar: „Við eigum eftir að fara á EM og við eigum eftir að fara á HM.“ Það var hlegið að því. En ég hafði klára sýn og vann stíft eftir henni.“

Meðal þess sem Geir vill bæta er að koma upp skrifstofum fyrir deildirnar til að vinna að Íslandsmótinu allt árið um kring. Segir hann núverandi forystu ekki hafa sömu áherslur eða sýn og hann hvað þetta og fleira varðar.

 

Baktjaldamakk í UEFA

Alexander Ceferin, forseti UEFA, gaf nýverið út yfirlýsingu um að samskiptin við KSÍ hafi aldrei verið betri en eftir að Guðni Bergsson tók við. Geir segist ekki hafa haft mikil samskipti við núverandi forseta UEFA sem var nýkjörinn þegar Geir var að hætta.

Heldur þú að þetta sé til komið af því þú studdir hann ekki?

„Hann er mjög fúll út í mig, mjög fúll. Ég fann það strax. Þegar til stóð að finna nýjan forseta UEFA hittumst við Norðurlandabúarnir og þá var greinilega mikið plott í gangi. Ég hef ekki mikið tekið þátt í svona plottum eða baktjaldamakki, heldur einblínt á okkar starf og landsliðin. En þarna var ég og þá kom þessi hugmynd um að við ættum að styðja Ceferin. Ég hafði kynnst honum nokkrum árum áður og sagði við þá orðrétt að við hlytum að geta fundið betri kandídat, sem væri meira inni í knattspyrnumálum. Ceferin hefði ekki brennandi áhuga á knattspyrnu. Svíinn og Daninn voru hins vegar alveg harðir á því að lýsa því yfir að Norðurlöndin ættu að veita honum brautargengi. Ég var ekki tilbúinn til þess og ekki heldur Færeyingurinn. Hinir fjórir gerðu það og þeim hefur verið launað ríkulega. Svíinn er orðinn varaforseti UEFA og Daninn er að hoppa inn í stjórnina.“

Er mikil pólitík þarna?

„Gríðarleg,“ svarar Geir og segir mikið á því að græða að komast áfram innan UEFA.

„Það eru hrossakaup þarna og ekkert örðuvísi en önnur pólitík. Ég hef einu sinni boðið mig fram í UEFA og þá var eiginlega komið að mér frá Norðurlöndunum. Á síðustu stundu hoppaði norski formaðurinn inn í baráttuna. Ef annar okkar færi fram þá væri gatan greið til að fá stjórnarsætið. Ég hafði langmestu reynsluna af þeim og hafði ekkert sótt þetta fast, en það var ekki nein leið. Í staðinn fyrir að við sætum bara saman og fyndum lausn á því hvor okkar færi fram fór svo að hvorugur okkar komst inn, til að greiða leiðina fyrir Svíann og Danann. Þetta eru okkar bestu bræður í fótboltanum en þegar kemur að völdunum og áhrifunum, þá er ekkert gefið eftir.“

Stjórnarkjör UEFA Hafnar sögum um að áfengisdrykkja hafi eyðilagt framboð.

Enginn bindindismaður

Þegar þú varst að bjóða þig fram í framkvæmdarstjórn UEFA árið 2015 hefur því verið fleygt fram að þú hafir tapað atkvæðum með áfengisdrykkju og aðrir hafi beðið þig um að halda þig til hlés og hleypa öðrum að?

„Nei, þetta er lygi,“ segir Geir ákveðinn. „Norski formaðurinn steig fram með falskan boðskap um að styðja Norðurlöndin. Hefði annar okkar fengið samanlögð atkvæðin hefði hann flogið inn.“

Þú hefur aldrei verið gagnrýndur fyrir að vera skapillur eða stinga undan peningum. En það hafa verið kjaftasögur um drykkjumenningu?

„Ég hef kannski ekki alltaf verið nógu faglegur og maður verður að umgangast áfengi með stillingu. Ég er enginn bindindismaður. Ég reyni að lifa lífinu, er kannski svolítið fjörkálfur stundum og vil hafa gaman af lífinu.“

Var drykkjumenning í knattspyrnunni almennt?

„Þegar ég kem inn í knattspyrnuhreyfinguna sem ungur maður þá kynntist ég þessari menningu, má segja. Í knattspyrnu og íþróttum almennt, þá var þetta svona, en ekki bara í kringum knattspyrnu á Íslandi,“ svarar Geir og bætir við að mikið hafi breyst til hins betra og það sé aðdáunarvert hvað leikmenn í dag hugsa betur um heilsu sína. Þá geri félagsliðin miklar kröfur um reglusemi. Segir Geir að allt annað andrúmsloft hafi verið á þeim tíma þegar hann tók sín fyrstu skref í knattspyrnuhreyfingunni.

 

Vill sjálfstæði félaganna

Er þitt framboð vantraustsyfirlýsing á Guðna?

„Ég hef ekki orðið var við annað en að hann hafi bara keyrt áfram á því módeli sem ég skildi eftir mig. Ég hef nýja sýn fyrir íslenska knattspyrnu sem Guðni hefur ekki og ég hef reynsluna og þekkinguna til að hrinda henni í framkvæmd.“

Sumir hafa tengt framboð þitt við íslenskan toppfótbolta?

„Ég er ekki sáttur við þá þróun sem er að verða núna í knattspyrnusamfélaginu með ÍTF og knattspyrnusambandið og það er hluti af því sem rak mig til að hugsa málið. Það er rosaleg kergja þar á milli og átök.“

Hvernig lýsti það sér?

„Ég átti vissulega í átökum við ÍTF og ég viðurkenni það fúslega. En við snúum tímanum ekki við. Mín sýn er sú að félögin fái að ráða miklu meira um sín mál. Það sem mér hugnast alls ekki við ÍTF í dag er að þessi samtök eru eins og annað knattspyrnusamband. Samtökin standa utan KSÍ, þau eru ekki aðilar að KSÍ. Svo ég segi að við þurfum ekki að finna upp hjólið við þurfum að hrinda í framkvæmd nýjum starfsháttum og nýjum aðferðum og dreifa valdinu. Þetta er valddreifingarhugmynd sem ég er með. Að félög þrói sínar eigin aðferðir í knattspyrnu; Akureyri þrói sínar, Skaginn sínar, KR sínar og Fjarðabyggð sínar, og svo framvegis, allt eftir því hvað mönnum hugnast. Ég held að fjölbreytni sé góð fyrir KSÍ.“

Félög innan efstu deildar hafa kallað eftir meira fjármagni frá KSÍ. Er þörf á því? Þarf ekki að taka frekar til í rekstrinum?

„Það geta allir nýtt meira fjármagn, en það er hins vegar alveg ljóst að félögin þurfa að standa með ábyrgum hætti að sínum rekstri og það vita þau. Við erum með leyfiskerfi, og stærsti liðurinn er auðvitað leikmannakostnaðurinn. En þegar þú lítur á stærstu knattspyrnufélögin, þá sinna þau gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið. Ég segi að íþróttir eru orðnar mun mikilvægari í okkar nútíma þjóðfélagi heldur en áður, því krakkarnir okkar eru bara heima og í tölvuleikjum.“

Pólitík
Geir bauð sig fram fyrir Miðflokkinn í vor.

Hefði mátt standa betur að ráðningu Hamrén

Samkvæmt veðbönkum er Guðni sigurstranglegur, ertu bjartsýnn?

„Ég segi oft, eins og með landsliðið og eins og þegar ég var að spila fótbolta; ég hef bara alltaf trúað því að þegar við förum inn á völlinn að við getum unnið.“

Hvað finnst þer um þennan sænska landsliðsþjálfara og hvað ætlar þú að gera við hann komist þú til valda?

„Ég vil ekki ræða einstaka persónur. Ef ég verð kosinn, þá starfa ég með þessu fólki. Eina sem ég get sagt horfandi utan frá er að vinnubrögðin hjá knattspyrnuhreyfingunni hefðu mátt vera betri þegar kom að því að ráða þjálfara í öll þessi mikilvægu störf og hann var í mjög erfiðri stöðu, þarna fjórum vikum fyrir leik, að vera ráðinn. Enda fengum við á kjaftinn.“

 

Skorti reynsluna í pólitík

Geir vakti athygli þegar hann bauð sig fram til bæjarstjórnar Kópavogs síðastliðið vor. Hann var oddviti Miðflokksins en fékk ekki brautargengi í kosningunum.

„Já, ég fór aðeins í pólitík og hafði gaman af.“

Hvað kaust þú áður en Miðflokkurinn kom?

„Ég er miðju hægri maður. Ætli ég sé ekki einhvers staðar þar. Í knattspyrnuhreyfingunni er sagt að ég sé alltof mikill jafnaðarmaður. Það nutu þess öll félög á Íslandi. Það er eitthvert jafnaðargen í mér.“

Ítarlegt viðtal við Geir má heyra í hlaðvarpsveitum eða á Spotify, 90 mínútur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Stjarna varð manni að bana og lokaði fyrir alla aðganga á samskiptamiðlum – Talinn hafa verið undir áhrifum vímuefna

Stjarna varð manni að bana og lokaði fyrir alla aðganga á samskiptamiðlum – Talinn hafa verið undir áhrifum vímuefna
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stórleikurinn fer fram í dag þrátt fyrir snjókomuna

Stórleikurinn fer fram í dag þrátt fyrir snjókomuna
433Sport
Í gær

England: Arenal tapaði stigum í Brighton

England: Arenal tapaði stigum í Brighton
433Sport
Í gær

Willum skoraði í öruggum sigri – Með flotta tölfræði í deildinni

Willum skoraði í öruggum sigri – Með flotta tölfræði í deildinni
433Sport
Í gær

Gríðarleg bjartsýni fyrir árinu hjá Strákunum okkar – „Ég held við séum að fara í einhverja veislu“

Gríðarleg bjartsýni fyrir árinu hjá Strákunum okkar – „Ég held við séum að fara í einhverja veislu“
433Sport
Í gær

Arsenal talið horfa í óvænta átt í janúarglugganum

Arsenal talið horfa í óvænta átt í janúarglugganum