Ole Gunnar Solskjær hefur byrjað frábærlega í starfi hjá Manchester United og unnið alla átta leikina sína. Solskjær fékk starfið aðeins tímabundið.
Núna er byrjað að ræða það að Solskjær fái starfið til framtíðar en annars snýr hann aftur til Molde í sumar.
,,Ég sendi Ferguson skilaboð eftir símtalið og hann sagði mér að taka starfið,“ sagði Solskjær um samskipti sín við Ferguson.
,,Hann taldi mig kláran í starfið, við höfum haldið sambandi eftir að ég fór til Cardiff og Molde. Hann hefur fylgst með framgöngu minni, það var því eðlilegt að hafa samband við hann. Hann kom og hitti okkur eftir að við tókum við, spjallaði við mig og starfsliðið. Það var frábært fyrir okkur, hann veit allt um fótbolta.“
,,Hann er að eldast og ég get því ekki verið að trufla hann í hverri viku, ég get ekki angrað hann það mikið.“
,,Ég sé hann eftir alla leiki á Old Trafford, ég fer og hitti hann í bakherbergi. Það er gaman að hitta á hann, Cathy (Eiginkona Ferguson) og alla vini hans.“
Eins og fram hefur komið hefur Solskjær unnið alla átta leikina sína í starfi.
,,Ég reyndi að skilja hvað þyrfti að gera, það var ekki hægt að hafna þessu. Þetta er frábær áskorun og þetta er félagið sem er næst hjarta mínu. Félagið taldi mig geta hjálpað.“
,,Ég talaði við Molde sem gaf blessun sína á að ég tæki þetta.“