Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United á von á því að Anthony Martial og David De Gea skrifi undir nýja samninga á næstunni.
Báðir eiga um eitt og hálft ár eftir af samningi sínum og eru viðræður í gangi um að framlengja þá.
Báðir voru efins um að skrifa undir nýjan samning þegar Jose Mourinho var stjóri liðsins.
Sagt er að Martial sé mjög nálægt því að skrifa undir og De Gea vill gera slíkt hið sama. ÓVíst er hvað gerist með Juan Mata, Ander Herrera og Ashley Young sem allir verða samningslausir í sumar.
,,Ég held að félagið sé að færast nær þessu en það er annað fólk sem sér um þetta,“ sagði Solskjær sem stýrir United út þessa leiktíð, óvíst er hvort að hann fái starfið til framtíðar.
,,Ég veit ekki hversu langt þetta er komið, vonandi eru góðar fréttir á næstu vikum.“