Paul Pogba miðjumaður Manchester United virðist ekki vera alltof sáttur með leikstíl liðsins undir stjórn Jose Mourinho.
Pogba og Mourinho hafa átt í deilum síðustu mánuði en miðjumaðurinn reyndi að fara frá United í sumar.
United gerði 1-1 jafntefli við Wolves um helgina þar sem liðið spilaði ekki vel og sóknarleikur liðsins var slakur
,,Við erum á heimavelli og við eigum að spila miklu betur gegn Wolves, við erum hér til að sækja, sækja og sækja,“ sagði Pogba eftir leikinn.
,,Þegar við spilum þannig þá gerir það hlutina einfaldari fyrir okkur.“
Pogba segir að lið verði hrædd við United þegar þeir gefi allt í botn en þannig virðist stjórinn ekki vilja spila.
,,Lið eru hrædd þegar Manchester United mætir og sækir og sækir, það var ekki í gangi í dag.“
,,Kannski eigum við að hafa betra viðhorf, við erum á Old Trafford og eigum að sækja og sækja, líkt og gegn Tottenham, Liverpool, Chelsea og Arsenal á síðustu leiktíð.“
Pogba kom til United sumarið 2016 fyrir 89 milljónir punda en hefur ekki staðið undir væntingum.