Jack Wilshere yfirgaf lið Arsenal í sumar en hann skrifaði undir samning við West Ham og kom þangað á frjálsri sölu.
Wilshere fékk reglulega að spila undir stjórn Arsene Wenger á síðustu leiktíð en var ekki inni í myndinni hjá Unai Emery, nýjum stjóra liðsins.
Wenger greindi frá því að hann hafi sjálfur ákveðið að stíga til hliðar en samkvæmt Wilshere var Frakkinn rekinn.
,,Ég var á mínu síðasta samningsári og ég ræddi við þáverandi stjóra Arsenal, Arsene Wenger,“ sagði Wilshere.
,,Hann sagði mér að mér yrði ekki boðinn nýr samningur og að ég mætti fara. Ég var meiddur á þessum tíma. Það var erfitt og það voru ekki mörg lið sem vildu meiddan leikmann.“
,,Ég ákvað því að vera þar áfram og komst aftur í liðið og fékk samningstilboð í janúar. Ég var tilbúinn að skrifa undir en svo var Arsene rekinn.“
,,Þetta var mjög furðulegt, allir voru mjög hissa og Per Mertesacker, fyrirliði, sagði nokkur orð við okkur. Allir voru mjög undrandi.“
,,Það sá enginn þetta fyrir en þetta breytti öllu. Ég vildi ræða við nýja stjórann og hann var mjög hreinskilinn.“