Heiðdís Sigurðardóttir er mikill stuðningsmaður Kristófer Acox körfuboltamanns.
„Það eru engin tengsl á milli þeirra, en Heiðdís hefur fylgt okkar manni í 2-3 ár, þrátt fyrir að vera aðeins sjö ára að aldri,“ segir Edna Jacobsen móðir Kristó.
„Hún missir ekki af landsleik, studdi sína menn áfram á EM og mætti svo í úrslitin í KR til að hvetja sinn mann.“
Kristófer ákvað því að fara og hvetja Heiðdísi áfram í dag þar sem hún var að keppa í fótbolta í 7. Flokki á Símamótinu í Kópavogi. Kom hann henni heldur betur á óvart með gjöf, en hann færði henni HM boltann. Hún æfir fótbolta og körfubolta alla daga og ætlar sér að verða eins góð og Kristó, „og það efast ég ekki um,“ segir Edna.
„Það er fallegt þegar íþróttamenn gefa tilbaka og veit ég að þetta mun fylgja henni alla tíð. Lífið er gott.“
„Mér finnst bara æðislegt þegar fyrirmyndir gefa tilbaka,“ segir Herdís Gunnlaugsdóttir,móðir Heiðdísar, sem er himinlifandi með heimsókn Kristó.
Þessi mynd var tekin af þeim árið 2016 þegar Heiðdís mætti á leikinn Ísland-Kýpur í Laugardalshöll í september. Heiðdís beið í 30 mínútur og neitaði að fara heim fyrr en hún væri komin með mynd af uppáhaldsleikmanninum sínum. Kristó varð að sjálfsögðu við beiðni hennar um myndatöku.