Enska landsliðið á möguleika á að ná sér í bronsverðlaun á HM á laugardag er liðið mætir Belgíu.
England tapaði gegn Króatíu í undanúrslitum í vikunni og á því ekki möguleika á bikarnum sjálfum.
Hópur Englands hefur fengið mikið hrós í sumar en margir ungir leikmenn hafa komið sterkir inn í Rússlandi.
Það eru þó nokkrir leikmenn Englands sem voru líklega að spila á sínu síðasta stórmóti.
Enskir fjölmiðlar telja að þrír leikmenn hafi nú spilað sitt síðasta stórmót fyrir England og munu ekki fara með ef liðinu tekst að tryggja sér sæti á EM 2020.
Leikmennirnir þrír eru þeir Ashley Young, Jamie Vardy og Gary Cahill sem eru komnir á síðari ár ferilsins.
Young kom reglulega við sögu hjá Englandi á mótinu í sumar en Vardy og Cahill voru í varahlutverki.
Young er 33 ára gamall í dag, Vardy er 31 árs og Cahill er 32 ára. Young á að baki 39 landsleiki, Vardy 26 og Cahill 61.