Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool hefur verið magnaður á þessari leiktíð.
Hann er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 29 mörk og þá hefur hann skorað 36 mörk fyrir Liverpool í öllum keppnum á þessari leiktíð.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool telur hins vegar að markið sem kom honum í gang hafi verið vítapyrnan sem skaut Egyptum á HM í Rússlandi í október á síðasta ári.
„Hvernig Egyptar fögnuðu vítaspyrnunni sem þeir fengu er eitt það besta sem ég hef séð,“ sagði Klopp.
„Ég hef aldrei séð annað eins. Þjóðverjar unnu HM árið 1990 og þeir fögnuðu ekki einu sinni svona. Þeir voru bara að fagna vítaspyrnunni og þú getur ímyndað þér pressuna sem fylgdi því að taka vítið.“
„Salah skoraði auðvitað en ég átti sjálfur erfitt með að horfa. Það ganga allir í gegnum ákveðin augnablik sem breyta lífi manns. Kannski var þetta þannig augnablik fyrir hann og við sjáum öll hvaða áhrif það hefur haft á hann,“ sagði Klopp að lokum.