Knattspyrnusamband Íslands sendi nýlega inn beiðni um stjórnsýslulega niðurfellingu á vörumerkjaskráningu Húh!.
Hugleikur Dagsson segir að honum hafi borist skilaboð frá ónefndum manni sem tjáði sér að hann ætti víkingaklappið, eða réttara sagt hið íslenska „HÚH!“. Hugleikur segist því ekki mega selja boli þar sem spýtukall segir „HÚH“. Ekki náðist í yfirmann hugverkasviðs hjá Einkaleyfastofu við vinnslu fréttarinnar.
Umræddur maður er Gunnar Þór Andrésson íþróttafræðingur. Samkvæmt heimasíðu Einkaleyfisstofu sótti hann um einkaleyfið þann 7.júlí 2016, þegar EM stóð sem hæst og hver einasti Íslendingur gargaði „HÚ“.
Með þessu er ætlun KSÍ að koma í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar geti hagnast á auðkenni landsliða Íslands.
Beiðni KSÍ er tvíþætt, í fyrsta lagi að fyrrnefnd skráning verði felld úr gildi þar sem merkið hafi ekki að bera nægileg sérkenni til að auðkenna vörur eða þjónustu eins aðila frá öðrum sem er skilyrði þess að hægt sé að skrá vörumerki.
Telji skráningaryfirvöld hins vegar að orðið húh sé skráningarhæft, þá fer KSÍ til vara fram á að sambandið eigi meiri rétt á þeirri skráningu á grundvelli notkunar. Knattspyrnusambandið er á engan hátt aðili að deilum aðila í tengslum við viðkomandi vörumerkjaskráningu.
,,Þessa teikningu, sem kallast einfaldlega “HÚ!”, teiknaði ég sumarið 2016. Stuttu síðar prentuðum við hjá vefbúðinni Dagsson.com þennan bol. Voða gaman. Allir sáttir. Seldist vel. En um daginn fengum við skilaboð frá ónefndum manni (Við skulum kalla hann Grinch) sem tjáði okkur að hann ætti orðið “HÚH!” og aðeins hann mætti prenta það á boli. Þetta kom okkur á óvart,“ segir Hugleikur.
Hann furðar sig á því að þetta sé hægt. „Í fyrsta lagi vissum við ekki að það væri hægt að eiga þennan óeiginlega sándeffekt. Við héldum að allir ættu þetta hljóð/orð/hróp. Í öðru lagi hélt ég að við hefðum sjálf stolið víkingaklappinu frá Skotlandi eins og almennilegir víkingar. Í þriðja lagi stendur ekki HÚH! á okkar bol heldur HÚ!. Sem að mínu mati er íslenskari stafsetning en HÚH! því við endum orð ekki á hái hérlendis,“ segir Hugleikur.
Hugleikur birti svo mynd á Twitter í dag þar sem Húh-ið er krossfest á föstudeginum langa.
— hugleikur dagsson (@hugleikur) March 30, 2018