Louis van Gaal, fyrrum stjóri Manchester Untied er ekki sáttur með Ed Woodward, framkvæmdastjóra félagsins.
Van Gaal var rekinn frá félaginu árið 2016 og var Jose Mourinho ráðinn í hans stað en liðið vann FA-bikarinn undir stjórn Hollendingsins, vorið 2016.
Stjórinn fyrrverandi segir að Woodward hafi logið að sér og átti hann alls ekki von á því að vera rekinn frá félaginu.
„Það sem pirrar mig mest er það að framkvæmdastjórinn segir mér að hann sé ánægður með mig að ég eigi ekki að trúa því sem stendur í blöðunum,“ sagði Van Gaal.
„Ég vinn svo FA-bikarinn fyrir félagið og er svo rekinn stuttu seinna. Pep Guardiola er besti stjórinn í ensku úrvalsdeildinni í dag og hann hefur gert City að vél. Hann er að spila fótbolta sem ég hefði viljað spila með Manchester United.“
„Málið er að hann er með réttu leikmennina til þess að spila svona. Þetta hefði tekið lengri tíma fyrir mig og ég fékk ekki þann tíma. Ég hefði þurft fjármagn sem ég fékk ekki heldur,“ sagði hann að lokum.