Ísland mætti Mexíkó í æfingaleik í San Fransisco í nótt en leikurinn var áhugaverður.
Mexíkó vann 3-0 sigur en úrslitin gáfu ekki alveg rétta mynd af leiknum.
Marco Fabian kom Mexíkó yfir í fyrri hálfleik með marki úr aukaspyrnu.
Miguel Layun bætti svo við marki í þeim síðari eftir dapran varnarleik Íslands. Mexíkó skoraði svo þriðja markið í uppbótartíma.
Plús og mínus er hér að neðan.
Plús:
Það var jákvætt að sjá í fyrri hálfleik hversu vel íslenska liðið gat skapað sér færi þrátt fyrir að beita skyndisóknum.
Kári Árnason spilar alltaf vel með íslenska landsliðinu, er aðeins í kuldanum hjá Aberdeen en bláa treyjan kveikir í honum.
Albert Guðmundsson gaf Heimi Hallgrímssyni jákvæðar fréttir. Það eru ekki bara gæði í stráknum, hann er einnig klár í að leggja mikið á sig. Var duglegur í pressu án boltans.
Íslenska liðið spilaði fyrri hálfleikinn afar vel. Ekki hægt að kvarta yfir neinu.
Mínus:
Dýfan sem varð til þess eð Mexíkó fékk aukaspyrnu til að skora fyrsta mark leiksins var grátleg, dómarinn féll í gryfjuna.
Íslenska liðið var slakt í síðari hálfleik, skiptingarnar riðluðu leik liðsins.
Rúnar Alex greip ekki gæsina eins og hann hefði getað gert.