Alexis Sanchez, sóknarmaður Manchester United gekk til liðs við félagið í janúarglugganum.
Hann kom til félagsins frá Arsenal í skiptum fyrir Henrikh Mkhitaryan en Sanchez hefur ekki staðið undir væntingum.
Sanchez er launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hann hefur einungis skorað eitt mark fyrir félagið síðan hann kom í janúar.
„Ég geri miklar kröfur til sjálfs míns og ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá bjóst ég við meiru,“ sagði Sanchez.
„Það var ákveðin breyting sem fylgdi því að ganga til liðs við United og hlutirnir gerðust mjög hratt, ég er ennþá að venjast því.“
„Þetta er í fyrsta skiptið sem ég skipti um félag í janúar og það er erfitt, ég get sagt ykkur það. Ég hef hins vegar gengið í gegnum erfiðleika áður í mínu lífi og þeir hafa bara styrkt mig,“ sagði hann að lokum.