Georginio Wijnaldum, miðjumaður Liverpool fékk slæma magakveisu í síðasta mánuði sem hélt honum frá keppni í nokkrar vikur.
Leikmaðurinn léttist um nokkur kíló og var mjög veikburða á tímabili sem gerði það að verkum að hann datt úr leikformi.
Hann hefur verið að snúa aftur í byrjunarlið Liverpool en hann var sem dæmi magnaður í 4-3 sigri Liverpool á Manchester City, fyrr á leiktíðinni.
„Ég fékk mjög slæma magakveisu sem geri það að verkum að ég léttist um nokkur kíló,“ sagði Wijnaldum.
„Ég vaknaði eina nóttina með mikinn niðurgang. Ég hringdi strax í lækni félagsins um morguninn og hann bað mig um að koma á æfingasvæðið. Hann sendi mig svo heim því hann vildi ekki að ég myndi smita aðra.“
„Ég var svona í tvær vikur og eftir fimm daga var tekið blóðsýni þar sem ekkert fannst. Það kom svo í ljós, síðar meir að ég var með einhvern vírus. Ég hef þurft að koma mér aftur í gang og ná upp fyrra leikformi en það er allt að koma,“ sagði hann að lokum.