Virði íslenskra knattspyrnumanna er misjafnt en þegar virði þeirra er skoðað kemur í ljós að Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Everton er í algjörum sérflokki.
Transfermarkt heldur úti gagnagrunni þar sem virði allra knattspyrnumanna er metið. Þannig kemur í ljós að virði Gylfa er 3,7 milljarðar en Alfreð Finnbogason, sem er næstur í röðinni, er 744 milljóna króna virði.
Virðið er reiknað út frá aldri, lengd samnings, launum og hvað leikmenn eru að gera innan vallar.
Gylfi Þór Sigurðsson – 3,7 milljarðar
Það er bara einn leikmaður Íslands sem fer úr því að vera milljóna virði og í það að verða milljarða virði. Virði Gylfa í dag er 3,7 milljarðar samkvæmt þessum útreikningum. Virði Gylfa er tæpum þremur milljörðum meira en næsta leikmanns.
Alfreð Finnbogason – 744 milljónir
Virði Alfreðs er metið á sex milljónir evra en framherjinn knái er einn af markahæstu leikmönnum þýsku úrvalsdeildarinnar. Alfreð hefur átt frábæran feril en þessa stundina glímir hann við meiðsli.
Jóhann Berg Guðmundsson – 496 milljónir
Virði Jóhanns hefur farið úr tveimur milljónum evra í fjórar milljónir evra eftir að hann festi sig í sessi hjá Burnley. Kantmaðurinn hefur átt gott tímabil og ekki ólíklegt að virði hans aukist á næstunni.
Ragnar Sigurðsson – 496 milljónir
Ragnar er nú í herbúðum Rostov í Rússlandi. Fyrri hluta tímbilsins lék hann með Krasnodar. Hann er í láni frá Fulham en ekki er líklegt að hann snúi þangað aftur.
Aron Einar Gunnarsson – 310 milljónir
Virði Arons hefur minnkað aðeins síðustu mánuði vegna þess að samningur hans er á enda í sumar og því ætti virði hans að hækka á nýjan leik í sumar.
Viðar Örn Kjartansson – 310 milljónir
Framherjinn öflugi er 310 milljóna króna virði en ljóst er að Maccabi Tel Aviv myndi fara fram á talsvert hærri upphæð fyrir hann enda markaskorarar alltaf dýrir.
Sverrir Ingi Ingason – 310 milljónir
Virði Sverris hefur verið að aukast og með sama áframhaldi mun það aukast hressilega næstu árin. Hann er að stíga stór skref fram á við og bætir leik sinn ár frá ári.
Jón Daði Böðvarsson – 310 milljónir
Framherjinn frá Selfossi hefur verið í stuði síðustu mánuði en Reading festi kaup á honum síðasta sumar eftir eitt ár Jóns í herbúðum Wolves.
Birkir Bjarnason – 248 milljónir
Virði Birkis hefur farið niður um eina milljón evra á síðustu mánuðum eða allt frá því að hann gekk í raðir Aston Villa. Það gæti þó aukist verulega í sumar ef Aston Villa fer upp í ensku úrvalsdeildina.
Hörður Björgvin Magnússon – 186 milljónir
Virði Harðars hefur örlítið minnkað frá síðasta ári en hann er að ná að festa sig í sessi aftur í byrjunarliði Bristol og ætti verðmiðinn að taka mið af því.
Rúnar Már Sigurjónsson – 186 milljónir
Virði Rúnars hefur minnkað um 500 þúsund evrur síðasta hálfa árið en hann er í láni hjá St. Gallen og hefur verið að spila vel síðustu vikurnar.
Albert Guðmundsson – 186 milljónir
Hann er sá leikmaður sem ætti að auka mest virði sitt á næstu árum. Hann býr að miklum hæfileikum og spilar fyrir stórt félag, PSV í Hollandi. Albert er maðurinn sem íslenskt knattspyrnuáhugafólk bindur mestar vonir við.