Liverpool tók á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með 4-1 sigri heimamanna.
Það voru þeir Emre Can, Mohamed Salah, Roberto Firmino og Sadio Mane sem skoruðu mörk Liverpool í dag en Michail Antonio minnkaði muninn fyrir West Ham í stöðunni 3-0 og lokatölur því 4-1 fyrir Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool var að vonum sáttur með sannfærandi sigur sinna manna í dag.
„Þegar að ég vaknaði ég morgun þá bjóst ég ekki við svona leik, þetta var frábær leikur fyrir alla stuðningsmenn Liverpool,“ sagði Klopp.
„Það var kraftur, við vorum ákveðni, reiðir og gerðum allt til þess að skora. Ég sá allt sem ég vil sjá í mínu liði þegar að það spilar fótbolta og það gerist ekki oft.“
„Við skoruðum úr föstu leikatriði sem er mjög jákvætt, við erum vanir að fá á okkur mörk úr föstum leikatriðum og það var því sætt að skora úr einu slíku í dag.“
„Annað sætið er frábært en hvort við getum haldið okkur þar þarf að koma í ljós, ég hef ekki áhyggjur af því eins og staðan er í dag,“ sagði hann að lokum.