Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool hefur verið magnaður fyrir félagið síðan hann kom síðasta sumar frá Roma.
Salah hefur nú skorað 30 mörk á tímabilinu og er þrettánda leikmaðurinn í sögu félagsins til þess að gera það á einu og sama tímabilinu.
Sóknarmaðurinn segir að Jurgen Klopp, stjóri liðsins hafi gert hann að betri leikmanni og að hann nyti þess að vinna með honum á hverjum degi.
„Ég spila nær markinu hérna en ég hef verið vanur að gera. Það hef ég aldrei gert áður á ferlinum og fyrrum þjálfarar mínir hafa ekki beðið mig um að gera það,“ sagði Salah.
„Ég reyni að halda mér fyrir framan markið. Stjórinn segir mér að vera aldrei langt frá markinu og það hefur breytt miklu. Ég vil ekki gefa upp of mikið en við vinnum mikið með þetta á æfingum liðsins.“
„Það er ekki hægt að skora 10 mörk úr 10 skotum, það er ómögulegt en ég veit að ég hef misnotað nokkur mjög góð færi á tímabilinu en ég er að reyna bæta nýtinguna hjá mér.“
„Þjálfararnir hérna hafa hjálpað mér mikið síðan ég kom og ég æfi aukalega með þeim eftir hverja æfingu. Ég kom hingað til þess að vinna titla og vonandi getum við farið að skila þeim í hús,“ sagði hann að lokum.