Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins vonast til þess að hefja æfingar á nýjan leik í næstu viku en þetta kom fram í Brennslunni á FM957 í morgun.
Hann hefur ekkert æft síðan í nóvember þegar hann gekkst undir aðgerð á ökkla vegna meiðsla sem höfðu verið að hrjá hann.
Aron er nú staddur á Íslandi í stuttu fríi en vonast til þess að geta byrjað að æfa aftur af fullum krafti í næstu viku.
„Þetta þurfti sinn tíma til að jafna sig eftir aðgerðina en ég vona að ég verði kominn út á gras í næstu viku,“ sagði Aron Einar í samtali við Brennsluna í morgun.
Cardiff hefur saknað Arons enda hefur liðið fallið niður í fjórða sæti deildarinnar síðan hann meiddist en liðið er í harðri baráttu um að komast upp í ensku úrvalsdeildina.