Juventus tók á móti Tottenham í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Gonzalo Higuain skoraði tvívegis fyrir heimamenn snemma leiks en þeir Harry Kane og Christian Eriksen jöfnuðu leikinn fyrir gestina og lokatölur því 2-2.
Harry Kane, framherji Tottenham var að vonum sáttur með úrslitin og segir að liðið eigi góða möguleika fyrir seinni leikinn.
„Það var jákvætt að koma til baka eftir að hafa lent undir svona snemma leiks,“ sagði Kane.
„Þetta var mjög góð frammistaða hjá okkur fannst mér. Þetta er gríðarlega erfiður útivöllur en við förum með tvö mörk með okkur á Wembley, þetta voru frábær úrslit.“
„Ég átti að skora úr skallafærinu sem ég fékk en það þýðir ekki að hengja haus. Ég var tilbúinn fyrir næsta færi og sem betur fer skoraði ég úr því,“ sagði Kane að lokum.