Luis Suarez, framherji Barcelona var í skemmtilegu viðtali á dögunum þar sem hann ræddi m.a feril sinn hjá Liverpool.
Hann spilaði með Liverpool á árunum 2011 til 2014 og var meðal annars valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar eftir tímabilið 2013-14.
Hjá Liverpool spilaði hann með Steven Gerrard, fyrirliða liðsins og náðu hann og Suarez afar vel saman og viðurkennir Suarez að hann sakni stundum liðsfélaga síns.
„Það sem að gerði Gerrard að svona einstökum leikmanni var hversu góður hann var að senda langar sendingar,“ sagði Suarez.
„Hann gaf sendingar sem voru einstaklega þægilegar fyrir framherja. Leikskilningur hans og hvernig hann las leikinn var magnað.“
„Það var alltaf hægt að fara í þríhyrningsspil við hann, við skildum hvorn annan á vellinum og hann vissi alltaf hvernig ég ætlaði að hreyfa mig.“
„Ég var mjög heppinn að fá að spila með jafn góðum leikmanni og honum, við áttum margar frábærar stundir saman á knattspyrnuvellinum,“ sagði hann að lokum.