Huddersfield tók á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með 4-1 sigri heimamanna.
Alex Pritchard kom heimamönnum yfir strax á 7. mínútu en Junior Stanislas jafnaði metin fyrir gestina, sjö mínútum síðar.
Steve Mounie skoraði svo annað mark heimamanna á 27. mínútu áður en hann bætti við öðru marki sínu á 66. mínútu.
Það var svo Rajiv van La Parra sem gerði út um leikinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma og lokatölur því 4-1 fyrir heimamenn.
Huddersfield skýst í sextánda sæti deildarinnar í 27 stig en Bournemouth er sem fyrr í tíunda sætinu með 31 stig.