Baráttan um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni hefur sjaldan verið jafn hörð eins og í ár.
Manchester City hefur afgerandi forystu á toppi deildarinnar með 68 stig og hefur 15 stiga forskot á Manchester United sem er í öðru sætinu með 53 stig.
Liverpool og Chelsea koma þar á eftir með 50 stig á meðan Tottenham er með 48 stig og Arsenal er í sjötta sætinu með 42 stig, 8 stigum frá Meistaradeildarsæti.
Frank Lampard og Rio Ferdinand telja að Liverpool og Arsenal verði þau lið sem muni missa af Meistaradeildarsæti í vor.
„Man City, Man United, Chelsea og Tottenham munu ná Meistaradeildarsæti. Liverpool eru of veikir varnarlega, þeir eru góðir sóknarlega en þeir munu sakna Coutinho,“ sagði Lampard.
„Ég ætla að veðja á City, United, Tottenham og Chelsea. Ég held að Hazard muni draga liðið í Meistaradeildarsæti, ef hann heldur áfram að spila eins og hann hefur verið að gera,“ sagði Ferdinand.
„Ég held að Liverpool muni klúðra þessu. Varnarlega, þá eru þeir veikir fyrir eins og Frank sagði þótt þeir séu sterkir framávið,“ sagði Ferdinand að lokum.