Hörður Magnússon, einn fremsti íþróttafréttamaður þjóðarinnar og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, var gestur í 90 mínútum, hlaðvarpsþætti 433.is.
Magnús Ólafsson er faðir Harðar, hann var á sínum tíma einn allra frægasti leikari landsins. Hann var frægur sem Bjössi Bolla en einnig fyrir mörg önnur hlutverk.
Sonur hans, Hörður fékk að finna fyrir því á ferli sínum að vera sonur Bjössa Bollu. Reynt var að tala um það á niðrandi hátt. Einnig var hann oft uppnefndur sem Höddi Skinka.
,,Það leyfðist miklu meira þá en í dag, sonur Bjössa Bollu og allt það. Ég held ég hafi varla spilað leik í nokkur ár, þar sem þetta var ekki nefnt. Viðurnefni eins og Skinkan,“ sagði Hörður í 90 mínútum.
,,Þetta sveið, maður var stundum pirraður á þessu. Þetta hafði ekki nein áhrif á mig þegar ég var að spila, meira eftir leiki. Ég var meira ákveðnari í að svara fyrir þetta, gerði það oft.“
Hörður fór yfir það hvar mesta eineltið fór fram en það var í Vestmannaeyjum.
,,Þetta var mest brútal í Eyjum, Keflavík líka. Þar voru menn þegar maður var að labba út af vellinum, KR-vellinum líka. Ég man eftir því í Eyjum, við áttum fótum okkar fjör að launa. Á 98 mínútu næ ég að jafna, síðasti leikur fyrir Þjóðhátíð. Við hlupum með dómaranum upp í sundlaug þar sem klefarnir voru, ef við hefðum ekki gert það, hefðu menn viljað tala við okkur. Það var allt vitlaust.“
Svona mál hafa komið upp á síðustu árum þar sem uppnefni úr stúkunni koma. Það er kæft í fæðingu en fær ekki að ganga í mörg ár eins og Hörður upplifði.
,,Þetta er kæft í fæðingu í dag, þetta gekk allan minn feril. Sumir andstæðingar og leikmenn, notuðu þetta.“
Þáttinn með Herði má heyra hér að neðan.