Það fór fram stórleikur í ensku úrvalsdeildinni í gær er lið Liverpool fékk Manchester City í heimsókn. Fyrri hálfleikurinn á Anfield var alls engin skemmtun og náði hvorugt lið skoti á rammann.
Síðari hálfleikur var fjörugri og fékk City besta færi leiksins er Riyad Mahrez steig á vítapunktinn undir lokin. Virgil van Dijk hafði gerst brotlegur innan teigs en hann renndi sér á eftir Leroy Sane og vítaspyrna dæmd.
Mahrez fékk gullið tækifæri til að tryggja City sigur en spyrna hans var skelfileg og fór yfir markið.
Gabriel Jesus vildi taka spyrnuna en Mahrez var frekari og fékk það í gegn.
,,Ég er ekki sáttur,“ sagði Jesus um málið á Anfield í gær.
,,Ég hef verið að æfa vítaspyrnur eins og Riyad, ég hefði viljað taka hana. Ég var með sjálfstraust, ég var ekki sáttur með að fá ekki að taka hana.“
,,Það sem var mikilvægt var samt að tapa ekki þessum leik.“