Stjórn KSÍ hefur endurskoðað fyrirkomulag á árangurstengdum greiðslum (stigabónus) til leikmanna A landsliðanna vegna leikja í undankeppnum stórmóta. Upphæðir sem greiddar eru til leikmanna fyrir áunnin stig í undankeppnum stórmóta verða þær sömu óháð því hvort lið sé um að ræða.
Hingað til hefur fyrirkomulagið milli A landsliða karla og kvenna verið gerólíkt en eftir breytinguna er fyrirkomulagið orðið eins hjá báðum A landsliðum. Um er að ræða umtalsverða hækkun á stigabónus til leikmanna A landsliðs kvenna. Því má svo bæta við að dagpeningagreiðslur KSÍ til leikmanna vegna þátttöku í verkefnum A landsliða karla og kvenna hafa verið jafn háar í báðum liðum um árabil.
Í grein í Fréttablaðinu árið 2006 kemur fram að stelpurnar í kvennalandsliðinu hafi þá fengið 0 krónur fyrir jafntefli eða sigra í undankeppnum. Á sama tíma fengu strákarnir 40-50 þúsund krónur á stigið.
Í dag eru breyttir tímar, stelpurnar hafa farið úr því að fá 0 krónur í að fá 300 þúsund krónur á hvern leikmann fyrir sigurinn.
100 þúsund krónur er greitt á stigið en þetta kom fram í frétt á Vísir.is í gær.
Breytingin hefur því verið mikil á 12 árum. Hefði þessi regla verið í gildi fyrir síðustu undankeppni hefði leikmaður getað fengið 2.100.000 milljón króna fyrir stigin í undankeppni EM þar sem liðið hefði náð sér í 21 stig. Kostnaðurinn hefði því verið 42 milljónir fyrir KSÍ en iðulega eru 20 leikmenn í hóp hjá A-landsliði kvenna.
Greinin úr Fréttablaðinu frá 2006 er hér að neðan.