Tottenham tók á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 2-0 sigri heimamanna.
Það var Christian Eriksen sem kom Tottenham yfir í upphafi leiks og Phil Jones skoraði svo sjálfsmark um miðjan fyrri hálfleikinn og niðurstaðan því 2-0 sigur Tottenham.
Jose Mourinho, stjóri United var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.
„Við byrjum leikinn á því að fá á okkur fáránlegt mark. Það hafði mikil áhrif á leikinn því þeir gátu spilað eins og þeir vildu eftir það. Við spiluðum gegn mjög góðu liði í dag en mörkin sem við fáum á okkur voru fáránleg,“ sagði stjórinn.
„Fyrsta markið orsakast eftir endalaust mistök af okkar hálfu. Þetta gerðist hratt en leikmenn mínir hafa oft séð Tottenham byrja sína leiki á löngum boltum. Þetta var mjög, mjög, mjög slæmt mark að fá á sig.“
„Við reyndum að snúa þessu við eftir markið og gerðum vel fannst mér og sköpuðum færi. Annað markið sem við fengum á okkur drap leikinn. Til að vinna leiki þarftu að skora mörk og verjast vel. Við gerðum báða hluti mjög illa í dag,“ sagði hann að lokum.