Arsenal tók á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með 4-1 sigri heimamanna.
Það voru þeir Nacho Monreal, Alex Iwobi, Laurent Koscielny og Alexandre Lacazette sem skoruðu mörk Arsenal í dag en Luka Milivojevic minnkaði muninn fyrir Palace undir lok leiksins.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal var að vonum afar sáttur með leik sinna manna í dag.
„Við spiluðum eins og við eigum að spila í fyrri hálfleik. Við vorum duglegir að hreyfa okkur án bolta og það var góður hraði í þessu hjá okkur,“ sagði Wenger.
„Ég hefði viljað sjá okkur gera svipaða hluti í seinni hálfleik en það gekk ekki eftir. Við erum fyrsta liðið til þess að vinna Palace í síðustu 12 leikjum þeirra.“
„Lacazette var orðinn aðeins pirraður á markaþurrðinni þannig að það var mikill léttir fyrir hann að skora. Við vitum að verkefnið framundan er erfitt en við trúum.“
„Stuðningsmenn okkar fengu frábæran fótbolta frá okkur í dag,“ sagði hann að lokum.