Brighton tók á móti Chelsea í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en leiknum lauk með 4-0 sigri gestanna.
Eden Hazard kom Chelsea yfir strax á 3. mínútu áður en Willian tvöfaldaði forystu Chelsea á 6. mínútu eftir magnað samspil við þá Hazard og Michy Batshuayi og staðan því 2-0 í hálfleik.
Hazard skoraði svo sitt annað mark í leiknum á 77. mínútu áður en Victor Moses innsiglaði sigur gestanna á 88. mínútu og lokatölur því 4-0 fyrir Chelsea.
Antonio Conte, stjóri Chelsea var áhyggjufullur fyrir leikinn en var afar sáttur í leikslok.
„Þetta var frábær frammistaða hjá okkur, við byrjuðum mjög vel og skoruðum snemma. Ég hafði áhyggjur af þessum leik því það voru leikbönn og meiðsli en liðið svaraði frábærlega,“ sagði Conte.
„Ég er mjög ánægður með allt liðið og að halda hreinu. Við hreyfðum boltann vel á milli manna og reyndum að finna auð svæði til þess að spila í.“
„Það var margt mjög jákvætt í okkar leik og núna er bara að byggja ofan á það og halda áfram,“ sagði Conte að lokum.