Barcelona hefur ekki lagt fram tilboð í Philippe Coutinho, sóknarmann Liverpool en það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu í dag.
Leikmaðurinn hefur verið sterklega orðaður við Barcelona, undanfarna mánuðu en félagið lagði fram þrjú tilboð í hann, síðasta sumar.
Liverpool hafnaði þeim öllum en spænskir fjölmiðlar hafa greint frá því, undanfarnar vikur að Barcelona ætli sér að bjóða 130 milljónir punda í Coutinho í janúarglugganum.
Samkvæmt nýjustu fréttum hefur ekkert tilboð borist í leikmanninn eins og áður sagði og Liverpool hefur lítinn sem engan áhuga á því að selja einn sinn besta leikmann á miðju tímabili.
Coutinho hefur verið frábær fyrir liðið á þessari leiktíð en hann missti af leik Liverpool og Burnley á dögunum vegna meiðsla.