HM í Rússlandi fer fram í sumar og er Ísland með á mótinu í fyrsta sinn í sögunni.
Að komast á HM er stórt afrek sem hefur ekki farið framhjá heimsbyggðinni og hefur Ísland vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu á knattspyrnuvellinum, undanfarin ár.
Íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og vann undanriðil sinn en riðillinn var einn sá sterkasti í undankeppninni.
Ísland mun svo leika í D-riðli Heimsmeistaramótsins ásamt Argentínu, Króatíu og Nígeríu og þykir riðillinn einn sá sterkasti á HM.
Juan Carlos Osorio, þjálfari Mexíkó hrósaði íslenska liðinu mikið í viðtali við FIFA á dögunum.
„Ísland er frábær fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir,“ sagði þjálfarinn.
„Land sem er með undir 500.000 íbúa, þeir komust alla leið í 8-liða úrslit Evrópumótsins og eru núna komnir á HM.“
„Þetta sýnir að það er eitthvað stórskostlegt í gangi þarna,“ sagði þjálfarinn að lokum.